Skólavefurinn kynnir

Söguvefir

Á þessari síðu er að finna mikið úrval af sögum fyrir alla aldurshópa sem búið er að vinna til kennslu.

Þær eru flokkaðar niður eftir aldursstigum.

Miðstig

Benjamín Franklín - ævisaga

..Bandafylkin í Vesturálfu eru nú eitthvert hið auðugasta land í veröldinni: Þar eru jarðir frjósamar og vel setnar; borgir stórar og fjölmennar; liggja járnbrautir aftur og fram um allt landið, en hjólskip bruna um ár og vötn; þar er kaupverslun og skipaganga í mesta blóma...

Miðstig

Ferðir Münchhausens baróns

Efnið sem skiptist í 19 kafla er einkum hugsað fyrir 5.-6. bekk. Byggir það í grunninn á hinum stórskemmtilegu sögum um Münchhausen barón. Eins og alltaf er efnið bæði fáanlegt í vefútgáfu með gagnvirkum æfingum (þar sem hægt er að hlusta á kaflana upplesna) og til útprentunar með fjölbreyttum verkefnum og svörum. Verkefnin taka til flestra þeirra þátta sem kveðið er á um í Aðalnámskrá grunnskóla fyrir áðurnefnda aldurshópa. Er hér á ferðinni frábær viðbót í almenna íslenskukennslu á miðstigi sem enginn má láta framhjá sér fara.

Miðstig

För Gúllívers til Putalands

Sagan af honum Gúllíver í Putalandi hefur lengi heillað unga sem aldna frá því hún kom fyrst út árið 1726. Höfundurinn var írskur maður, Jonathan Swift, og hefur hann stundum verið nefndur mesti háðsádeiluskrifari sem ritað hefur á enska tungu. Hér er sagan í þýðingu Þorsteins Erlingssonar með góðum verkefnum í íslensku sem taka mið af markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla fyrir 6. bekk. Er hér um að ræða heildstætt námsefni í íslensku. Sagan telur 13 kafla.

Yngsta stig

Sagan af Labba pabbakút

Sagan af Labba pabbakút eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur er afar skemmtileg saga og hér er búið að útbúa hana sem heildstætt námsefni í íslensku fyrir yngri nemendur. Efnið samanstendur af 7 köflum og skiptist í leshefti og vinnubók. Þá er einnig hægt að prenta út staka kafla. Útprentanlegri útgáfu fylgja verkefni og svör.  Vefútgáfu fylgja gagnvirkar æfingar og leikir. Einnig er hægt að hlusta á söguna upplesna.

Unglingastig

Sæfarinn eftir Jules Verne

Hér er á ferðinni námsefni í íslensku hugsað fyrir 8.-10. bekk. Sagan Sæfarinn eftir Jules Verne er notuð sem útgangspunktur inn í víðáttur íslenskunnar sem og aðrar námsgreinar ef því er að skipta. Leggjum við mikla áherslu á að gera námsefnið skemmtilegt og aðlaðandi um leið og við fylgjum markmiðum aðalnámskrár eins vel og ítarlega og efnið gefur tök á. Við hvetjum alla til að kynna sér þetta efni vel, bæði kennara og nemendur, enda má nota það bæði sem almennt kennsluefni í bekk og/eða sem einstaklingsefni og hentar vel sem þjálfunarefni fyrir samræmt próf í íslensku. Sagan telur 30 kafla og að venju er bæði hægt að nálgast efnið í sérhannaðri vefútgáfu, myndskreyttri með gagnvirkum skýringum og æfingum og/eða í útprentanlegri útgáfu með góðum verkefnum. Í sögunni lætur Verne hetjur sínar ferðast í kafbáti um óravegu undirdjúpanna. Hafði slíkt aldrei verið gert og menn þekktu lítið til lífsins undir yfirborði sjávar. Sagan hefur haft víðtæk áhrif, ekki síst fyrir persónusköpun, en Númi (Nemo) skipstjóri hefur t.a.m. verið fyrirmynd margra síðari tíma hetja og þá hafa raunverulegir kafbátar borið nafn þessa fyrirrennara síns, Nautilius.

Yngsta stig

Sögur af Alla Nalla

Hér er á ferðinni vandað heildstætt námsefni sem byggir á hinni stórskemmtilegu sögu Vilborgar Dagbjartsdóttur, Sögur af Alla Nalla. Efnið samanstendur af 13 köflum sem bæði er hægt að nálgast í útprentanlegri útgáfu og í vefútgáfu. Útprentanlegri útgáfu fylgja verkefni og svör.  Vefútgáfu fylgja gagnvirkar æfingar og leikir. Einnig er hægt að hlusta á söguna upplesna.

Unglingastig

Þrautir Heraklesar

Sagan af Heraklesi eða Herkúlesi, einsog hann er gjarnan nefndur, á sér rætur í grísku goðafræðinni. Við bjóðum upp á söguna í skemmtilegum búningi sem sem telur 14 kafla og getur hentað nemendum frá 7. og upp í 10. bekk. Hverjum kafla fylgja fjölbreytt og góð verkefni bæði vefútgáfu og prentútgáfu.

Miðstig

Canterville draugurinn

Við höfum nú útbúið skáldsöguna CANTERVILLEDRAUGURINN eftir Oscar Wilde í kennslubúning í íslensku fyrir efri bekki grunnskólans. Sagan er stórskemmtileg og ættu flestir að hafa gaman af henni.

Meginmarkmið efnisisns er að þjálfa nemendur í lestri, lesskilningi og lesrýni.

Á yfirborðinu er hér um að ræða gamansögu þar sem ógnvænlegir og skelfilegir atburðir eru settir fram með kómískum hætti þannig að öll ógn og skelfing víkur fyrir háði og fáránleika. 

Hægt er að nálgast söguna sem flettibók, á vefsíðu með orðskýringum og svo er hægt að prenta hana út, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Þá fylgja sögunni fjöldi verkefna bæði til útprentunar og gagnvirk. 

Sagan hefur ekki verið þýdd á íslensku fyrr en nú, en hér birtist hún í þýðingu Aðalsteins Magnússonar.

Yngsta stig

Tumi þumall

Hér bjóðum við upp á hina sígildu sögu af Tuma þumli í þýðingu Þorsteins Erlingssonar, en ritháttur á stöku stað færður til nútímans. Sagan er boðin bæði í útprentanlegu formi með fjölda verkefna og á vefsíðuformi með gagnvirkum æfingum. Sagan telur 14 kafla og tilvalið að nota sem ítarefni.

Unglingastig

Allir og Enginn

Hér er á ferðinni stutt ævintýri eftir skáldið og rithöfundinn Jóhann Hjálmarsson. Þar segir frá land i sem á sér engin landamæri og er í raun ekki til. Íbúar þess heita Allir og Enginn. Sagan hefur einungis einu sinni áður birst á prenti, en það var í Lesbók Morgunblaðsins árið 1965. Var hún þá myndskreytt af listamanninum Alfreð Flóka og fylgja þær myndskreytingar sögunni hér. Bæði fáanleg sem vefefni og útprentanleg.

Miðstig

Að löngum árum liðnum

Sagan Að löngum árum liðnum eftir Agnes M. Dunne fjallar um ungan mann, Alfred Banford sem er af aðalsættum. Alfred og fjölskylda hans fá hjálp úr ólíklegustu átt þegar vagn þeirra bilar á heimleið. Í framhaldi fær Alfred hestasveininn sem hjálpaði þeim til að aðstoði sig við að koma móður sinni á óvart. Þau launa honum ríkulega en Alfred órar ekki fyrir því að hann muni nokkurn tímann hitta unga hestasveininn aftur, en engin veit ævi sína fyrr en öll er. Að löngum árum liðnum er saga sem sýnir það að maður ætti ávallt að hjálpa þeim sem minna mega sín.

Unglingastig

Hjálpaðu þér sjálfur

Má segja að hér sé á ferðinni kennslubók í að ná árangri í lífinu og vitnað í sögur af merkum einstaklingum. Er hún í grunninn eftir mann að nafni Samuel Smiles, en það var Ólafur Ólafsson kenndur við Guttormshaga sem íslenskaði hana og staðfærði að íslenskum veruleika.

Miðstig

Hrói höttur

Sagan af Hróa hetti og köppum hans hefur lengi verið ungu fólki hugleikin, enda höfðar hún til svo margra þátta í hugum þess. Hugmyndin um útlagann sem rænir þá ríku til þess að gefa hinum fátæku; manni sem ræðst gegn ríkjandi óréttlæti og berst gegn kúgun á eigin forsendum er eitthvað sem kemur við réttlætiskennd okkar allra. Við bjóðum upp á heildstætt námsefni íslensku í kringum söguna af Hróa hetti, þar sem við tengjum saman bókmenntir, málfræði, ritun, krossgátur, leit á vef o.fl. Textinn er unninn upp úr gömlu þýðingu Halldórs Bríems frá því skömmu eftir aldamótin 1900, en við höfum fært málfar til nútímanlegra horfs þar sem aldarhátturinn skar um of í augun og samræmt stafsetningu. Gamli blærinn sem er svo heillandi er þó til staðar enn. Efnið skiptist í 18 kafla.

Unglingastig

Jón halti

Eflaust kannast margir við Jónas Jónasson frá Hrafnagili, þann er tók saman bókina ,,Íslenskir þjóðhættir", sem skólanemar og aðrir hafa stuðst svo vel við í gegnum tíðina. En þeir eru kannski færri sem vita það að Jónas var afkastamikill skáldsagnahöfundur og einn fyrsti spennusagnahöfundur okkar Íslendinga ef Íslendingasögurnar sjálfar eru ekki taldar með. Við ætlum nú að kynna ykkur þessa hlið á manninum Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili með því að bjóða ykkur upp á söguna ,,Jón halti" eftir hann í framhaldssöguformi. Verkefnin sem fylgja sögunni eru unnin miðað við Aðalnámskrá grunnskóla, en auk þess er reynt að skoða söguna út frá bókmenntalegum forsendum og nokkur helstu hugtök sem notuð eru við slíkar greiningar kynnt og unnið með þau. Sagan er myndskreytt af Irene Ósk Bermudez.

Unglingastig

Júdas

Okkur er ánægja að kynna söguna „Júdas“ eftir Sigurð Róbertsson rithöfund. Hér segir frá hinum eina sanna Júdasi Ískaríot, en sjónarhornið er ólíkt því sem við erum vön að fylgja og er óhætt að segja að sagan veiti okkur nýja sýn inn í þessa þekktu sögu úr Biblíunni. Já, það getur verið forvitnilegt að skoða söguna stundum í nýju ljósi. Sagan er í 9 köflum og er eins og alltaf fáanleg bæði í sérhannaðri vefútgáfu og í útprentanlegri útgáfu með góðum verkefnum. Telur hún í útprentun 25 blaðsíður. Á vefsíðunni er hægt að hlusta á söguna upplesna. Verkefni miðast við 8.-10. bekk.

Unglingastig

Róbinson Krúsó eftir Daniel Defoe

Sagan Róbinson Krúsó kom fyrst út árið 1719 og hét þá ,,Life and strange surprising adventures of Robinson Crusoe". Hún varð strax mjög vinsæl og enn þann dag í dag yljar hún lesendum út um allan heim, enda sagan verið þýdd á ótal tungumál. Hér er á ferðinni heildstætt námsefni í íslensku  fyrir efstu bekki grunnskólans.  Sagan er hér í 21 kafla og fylgja hverjum kafla góð verkefni hvort heldur vefútgáfu og prentútgáfu.

Unglingastig

Ást og auður

Ást og auður er stutt örlagasaga í 11 köflum, oft átakanleg. Segir þar frá stúlkunni Sigríði, bóndanum Gísla sem ann henni hugástum og kaupmanninum Þórarni sem giftist henni. Það sem kannski helst gerir söguna jafn góða og skemmtilega aflestrar og raun ber vitni er einlægnin og ákefðin sem býr að baki. Sagan getur hentað ólíkum aldurshópum og fer þá eftir hverjum einum hvernig unnið er úr verkefnunum og með söguna almennt.