Hér er að finna fjölda Íslendingasagna og Íslendingaþátta.
Sögunum fylgja góð verkefni, upplestur, orðskýringar og ýmiss konar ítarefni.
Fóstbræðrasaga var lengi vel talin með elstu Íslendingasögum, en nú er almennt talið að hún sé með þeim yngri og skrifuð undir lok 13. aldar. Er sagan til í mörgum uppskrifum, m.a. í Hauksbók, Möðruvallabók og Flateyjarbók, þar sem henni er skeytt inn í Ólafs sögu helga.
Sagan fjallar einkum um þá fóstbræður Þormóð Bersason, sem kallaður var Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson. Þó að þeir bindist vinarböndum og eigi samleið í uppivöðslusemi þegar þeir eru ungir eru þeir ólíkir um flesta hluti. Þorgeir er fyrst og fremst vígamaður sem virðist ættaður aftan úr heiðni; hugmyndaheimur hans á margan hátt úr takt við samtímamenn hans, en Þormóður er fjölbreyttari maður, kvennamaður og skáld sem getur lagað sig að breyttum aðstæðum, s.s. tileinkað sér nýja trú o.þ.h.
Finnboga saga er bráðskemmtileg og enginn skortur á ýkjukenndum lýsingum. Hún er ein af yngri Íslendingasögunum, talin rituð á fyrri hluta 14. aldar en lýsir atburðum sem eiga að hafa átt sér stað á 10. öld og allt fram yfir kristnitöku (Finnbogi lét gera kirkju í elli sinni). Sögusviðið vítt, allt frá Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu til Húnavatnsþings og loks Trékyllisvíkur. En einnig bregður söguhetjan sér til Noregs og þaðan allt til Grikklands og lendir í mörgum ævintýrum.
Króka-Refs saga hefur notið vinsælda á fyrri tíð eins og m.a. sést af því að út frá henni hafa verið ortar a.m.k. þrennar rímur. Eitt rímnaskáldanna er sjálft passíusálmaskáldið, Hallgrímur Pétursson. Vinsældir sögunnar má rekja til þess að hún er vel og skipulega sögð, hún er spennandi og viðburðarík, og hetjan er heilsteypt og afar snjöll og úrræðagóð. Sagan er listavel skrifuð. Gamansemi og skopskyn birtist víða. Það er því létt yfir frásögninni og jafnframt má draga af henni lærdóm, m.a. um mannlega kosti og bresti. Hún mun vafalaust höfða til skólafólks á unglinga- eða framhaldsskólastigi. Allmargar útgáfur eru til af Króka-Refs sögu. Hér er textinn færður til nútímastafsetningar en ýmsar gamlar beygingarmyndir orða fá þó að halda sér.
Brennu-Njáls saga, eða Njála eins og hún er kölluð, þarfnast engrar kynningar við. Flestir Íslendingar vita af henni og hvaða sess hún hefur í bókmenntum vorum. Sagan hefur að geyma margar af helstu hetjum fortíðarinnar, fólk eins og þau Njál og Bergþóru, Gunnar og Hallgerði langbrók, Kára Sölmundarson og hinn stórbrotna Skarphéðin Njálsson. Þá má ekki gleyma einum helsta skúrki íslenskra bókmennta, Merði Valgarðssyni.
Gunnlaugs saga ormstungu hefur lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um heitar ástir ungmenna og mikil örlög en er jafnframt blandin gamansemi og húmor. Hún er sterk í byggingu og er römmuð inn af draumum sem feður aðalpersónanna dreymir. Helstu persónur eiga hver sín einkenni, mikla kosti og augljósa galla, sem gera dramatísk átök óumflýjanleg. Sagan er tilvalin til umræðu um mannlegan breyskleika og mannleg samskipti, og mætti nýta til siðferðislegrar og heimspekilegrar rökræðu. Á hana má líta sem dæmisögu um það hvernig farið getur ef haldið er dauðahaldi í gömul hetju- og sæmdargildi í friðsömu bændasamfélagi. Eða öllu heldur, hvernig farið getur ef ekki er hugað að dygðum á borð við sanngirni og tillitssemi í samskiptum manna. En jafnframt er þetta saga um mannlega reisn og mannlegan harm í viðsjárverðum heimi.
Gísla saga Súrssonar hefur lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum og Gísli sjálfur ein ástsælasta hetjan sem þær hafa vakið til lífsins. Hefur sagan enda verið kennd í skólum landsins um áraraðir. Eins og með svo margar Íslendingasögur eru skilin á milli skáldsögunnar og raunverulegra atburða víða óglögg. Við vitum jú að flestar aðalpersónur sögunnar voru til og að ákveðinn kjarni atburðarásarinnar er sannur, en við gerum okkur líka fulla grein fyrir því að höfundur sögunnar, hver svo sem hann er, tekur sér listrænt skáldaleyfi þegar sagan kallar á það. Í raun má sannleiksgildið einu gilda, því höfundi tekst að glæða persónurnar þvílíku lífi að þær standa manni jafnvel enn nær en raunverulegt fólk. Nægir þar að nefna Auði konu Gísla, Þorkel bróður hans, Þorgrím goða og fleiri.
Hrafnkels saga Freysgoða er Íslendingasaga og jafnframt frægust allra Austfirðinga sagna. Hefur hún löngum verið mönnum hugleikin, sem m. a. má sjá af því að um enga aðra Íslendingasögu hefur verið skrifað meira nema ef væri Njála. Þrátt fyrir að hún sé heldur knöpp í samanburði við margar aðrar Íslendingasögur skipa listræn efnistök og bygging henni á bekk með þeim bestu.
Eins og með aðrar Íslendingasögur er ekki vitað um höfund Laxdælu, en því hefur stundum verið haldið fram að hún sé skrifuð af konu og verður það að teljast nokkuð óvenjulegt. Hafa menn komist að þeirri niðurstöðu kannski fyrst og fremst vegna þess hve konur hafa þar stór hlutverk og eru í raun miklir áhrifavaldar í allri framvindu sögunnar. Ber þar fyrst að geta Guðrúnar Ósvífursdóttur og svo Unni djúpúðgu og einnig írsku konungsdótturinni og ambáttinni Melkorku. Þá er í sögunni að finna eina af áhugaverðari gátum Íslendingasagnanna, sem menn hafa deilt um og leitað svara við án árangurs í gegnum tíðina, en það er túlkun orða Guðrúnar Ósvífursdóttur er Bolli Bollason sonur hennar spyr hana hverjum bænda sinna og ástmanna hún hefði unnað mest, en Guðrún svarar með þeim frægu orðum: ,,Þeim var ég verst er ég unni mest”. Já, nú er bara að lesa sjálfa söguna eða hlusta á hana upplesna og sjá hvort þið getið svarað þeirri gátu.
Hér birtist Kjalnesinga saga í rafrænni útgáfu, ætluð til lestrar á unglingastigi og í framhaldsskólum. Sögunni fylgja orðskýringar, spurningar um innihald og svör, leiðbeiningar til kennara (umræðuefni) og upplestur; einnig eftirmáli þar sem Baldur Hafstað ræðir um söguna, leyndardóma hennar og sérstöðu meðal fornsagna.
Egils saga Skallagrímssonar er og verður okkur Íslendingum ávallt hugleikin, enda ein af stórbrotnustu Íslendingasögunum og talin skrifuð af sjálfum Snorra Sturlusyni. Egils sögu má skipta í tvo hluta, en sá fyrri (1-27) segir sögu Kveld-Úlfs Bjálfasonar; sona hans Skalla-Gríms og Þórólfs og baráttu þeirra við norska konungsvaldið. Sá síðari segir svo sögu Egils sjálfs, af skáldinu, vígamanninum og bóndanum sem býður erlendu valdi byrginn og hefur sigur að lokum.