Nýtt útlit

Skólavefurinn.is kynnir

Bragur.is

Vefur um bragfræðikennslu

Um verkið
(smelltu hér)

What’s a Rich Text element?

The rich text element allows you to create and format headings, paragraphs, blockquotes, images, and video all in one place instead of having to add and format them individually. Just double-click and easily create content.

adfasdfasdf

Static and dynamic content editing

A rich text element can be used with static or dynamic content. For static content, just drop it into any page and begin editing. For dynamic content, add a rich text field to any collection and then connect a rich text element to that field in the settings panel. Voila!

How to customize formatting for each rich text

How to customize formatting for each rich text

Headings, paragraphs, blockquotes, figures, images, and figure captions can all be styled after a class is added to the rich text element using the "When inside of" nested selector system.

1. Um bragarreglur

Bragreglur þær sem tíðkast í íslenskum rímnakveðskap eru í raun hvorki margar né flóknar.

Reglunum má til einföldunar skipta niður í eftirfarandi svið.

a)  hrynjandi (taktur), allur hefðbundinn bragur einkennist af einhvers konar hrynjandi þar sem mismunandi áherslur skipta braglínunum í taktbil svipað og tíðkast í tónlist. Þessi taktbil kallast bragliðir eða kveður. Í þessu riti munum við yfirleitt nota orðið kveða. Orðið bragliður merkir það sama.

b)  rím, allar vísur undir rímnaháttum hafa endarím, ýmist víxlrím eða runurím. Rímformið getur svo orðið miklum mun flóknara ef höfundurinn kýs.

c)  ljóðstafir, stuðlar í frumlínu og höfuðstafur í síðlínu er ómissandi í rímnakveðskap. Auk þessa forms, sem er algengast, eru til sérstuðlaðar línur sem hafa tvo stuðla en tengjast ekki næstu línu með höfuðstaf. Í framhaldi af umfjöllun um ljóðstafi verður rætt um ofstuðlun og aukaljóðstafi.

d)  erindi (erindi merkir vísa, orðið erindi er gjarnan notað þegar rætt er um eina sérstaka vísu í kvæði eða rímu), allar rímur skiptast í erindi; oftast eru fjórar línur í hverju erindi en stundum eru þær þrjár (þríkvæðir hættir) eða bara tvær (tvíkvæðir hættir).

e)  bragarhættir, fjöldamargir bragarhættir eru til innan rímnaháttanna. Hér verður stuðst við bókina Bragfræði og háttatal eftir Sveinbjörn Beinteinsson. Þar eru tuttugu hættir skýrðir og sýnd um þá dæmi.

2. Hrynjandi

Kveður og klapp

Hrynjandi vísunnar byggist á því að áherslur falla með reglulegu millibili innan línunnar. Skoðum dæmi:

Fuglinn | syngur | fullur | kæti | fyrir | Gunnu.

Hér hafa kveður verið afmarkaðar með lóðréttu striki. Í málsgreininni eru sex orð, þau eru öll tveggja atkvæða. Í þessu tilviki er hvert atkvæði ein kveða. Nú er það regla í íslensku að leggja alltaf þyngsta áherslu á fyrsta atkvæði hvers orðs. Þá gefur augaleið að þegar raðað er saman tveggja atkvæða orðum lendir áherslan á öðru hverju atkvæði. Við það skapast taktur svipað og í tónlist. Auk reglunnar um áherslu á fyrsta atkvæði hvers orðs verðum við að muna eftir því að orð eru missterk þegar þau raðast inn í setninguna. Sum orð eru sterk (t.d. nafnorð, lýsingarorð, sum atviksorð, sagnorð, sérstaklega fallhætti sagna,  o.fl.) en önnur eru veikari (t.d. forsetningar, fornöfn, sum atviksorð, sögnin að vera, o.fl.). Breytum línunni örlítið:

Frek hún | var og | full sú | snót sem | fór til | Gunnu.

Hér eru tvö orð í öllum kveðum nema þeirri síðustu. Sterkari orðin eru framar, þau veikari aftar. Skoðum nú vísu eftir Pál Ólafsson:

Rangá fannst mér þykkjuþung,
þröng mér sýndi dauðans göng.
Svangan vildi svelgja lung,
söng í hverri jakaspöng.      

(Páll Ólafsson)

Lesið vísuna og hlustið eftir taktinum í henni. Góð æfing er að klappa í taktinn. Klappið aðeins við þyngri atkvæðin. Hér er annað hvert atkvæði þungt. Skoðum vísuna aftur:

Rangá fannst mér þykkjuþung,
þröng mér sýndi dauðans göng.
Svangan vildi svelgja lung,
söng í hverri jakaspöng.          

Nú eru þyngri atkvæðin feitletruð (þar er klappað). En nú skulum við taka sömu vísuna einu sinni enn og skipta henni í kveður:

Rangá | fannst mér | þykkju- | -þung,
þröng mér | sýndi | dauðans | göng.
Svangan | vildi | svelgja | lung,
söng í | hverri | jaka- | -spöng.

Kveða byrjar alltaf á þungu atkvæði (klappi). Lóðréttu strikin afmarka kveðurnar og þið sjáið nú að í hverri þeirra eru tvö atkvæði nema í síðustu kveðu hverrar línu, þar er aðeins eitt. Þið sjáið líka að í þremur fyrstu kveðum hverrar línu eru ýmist eitt orð eða tvö. Ef þar er eitt tveggja atkvæða orð kemur áherslan (klappið) á fyrra atkvæðið samkvæmt reglunni sem skýrð var í upphafi kaflans (sbr. Rangá, dauðans); ef þar eru tvö eins atkvæðis orð verður sterkara orðið að vera á undan, það veikara á eftir (sbr. fannst mér, söng í); áherslan (klappið) kemur á fyrra orðið. Síðasta kveða hverrar línu er aðeins eitt atkvæði sem hefur þunga áherslu (klapp) (lung, spöng). Slíkar kveður kallast stúfar.

Forliðir, þríliðir, úrfelling

Forliðir nefnast áherslulétt eins atkvæðis orð (oftast, þeir geta þó verið lengri) sem standa fremst í braglínum, framan við fremstu kveðuna. Forliðir bera aldrei ljóðstafi því að þar er létt áhersla. Ljóðstafir eru ævinlega fremst í kveðum vegna þess að þar er áherslan þung. Skoðum dæmi um forliði:

Beiði ég þann, sem drýgir dáð
og deið á hörðum krossi leið,
sneiða þann frá nægt og náð,
sem neyðir mig um sjöttareið.

(Látra-Björg)

Þegar braglína byrjar á forlið er heppilegra að línan á undan endi á stýfðum lið vegna þess að leiða má rök að því að forliðurinn sé seinni hluti af síðustu kveðu braglínunnar á undan.
Hrynjandi rímnaháttanna byggist alltaf á tvíliðum, þ.e. kveðurnar eru tvö atkvæði. En einstaka sinnum sér höfundurinn sig tilneyddan að smeygja þrílið inn á milli tvíliðanna. Þetta skaðar ekki ef hóf er á, sbr. Afi minn fór á honum Rauð. Skoðum dæmi:

Herðir frost og byljablök.
Ber mig vetur ráðum.
Ævi mín er vörn í vök.
Vökina leggur bráðum.

(Örn Arnarson)

Úrfelling kallast það sem stundum gerist þegar orð endar á sérhljóða og næsta orð hefst á sérhljóða. Þá fellur annar sérhljóðinn á brott: Sofnar lóa´ er löng og mjó ... 2. kveða þessarar braglínu er lóa er, borið fram lóer, skrifað lóa´ er. Skoðum dæmi:

Mastrið syngur sveigt í keng,
seglið kringum hljómar.
raddir þvinga´ úr stagi´ og streng
stormsins fingurgómar.

(Stephan G. Stephansson)

Hér eru tvær úrfellingar: þvinga´ úr stagi´ og. Úrfellingar eru algengar í kveðskap en ekki þykir fallegt að hafa mikið af þeim. Það sama á við um þríliðina. Best er að hafa þá í hófi enda langoftast hægt að finna aðra leið til að koma braglínunni saman. Forliðir eru hins vegar stundum aðeins til prýði og ástæðulaust að amast við þeim, ef línan á undan endar á stýfðum lið, eins og fyrr kom fram. Ef forliður er settur á eftir línu sem endar á óstýfðum lið er í raun ekki pláss fyrir hann, sbr. þennan vísuhelming:

Stúlkan sú er best og blíðust
sem bíður mín í dalnum.

(RIA 1994:48)

Þetta sem í síðlínunni á ekki heima þarna eins og glöggt má heyra þegar braglínuparið er lesið.

3. Rím

Einfalt endarím

Eins og fyrr var drepið á getur rím verið afar flókið og skrautlegt en það rím sem er skyldubundið í rímnaháttunum er hins vegar afar einfalt. Það felst í því að orðin í endum braglínanna ríma saman.

Skoðum vísu eftir Sigurgeir Hilmar:

Án var mærin undirkjóls,
örlaði hvergi á fati.
Laugarvörður Lýsuhóls
lá á skráargati.

Í braglínum 1 og 3 (frumlínum, sjá síðar) ríma saman eins atkvæðis orð, kjóls - hóls. Það kallast einrím (oft kallað karlrím). Í línum 2 og 4 (síðlínum, sjá síðar) ríma saman tveggja atkvæða orð, fati - gati. Það kallast tvírím (líka kallað kvenrím).
Hér verður ekki fjallað um flóknari rímform utan eitt. Það kallast hringhenduform, vísa undir slíku formi kallast hringhenda. Þá ríma saman áhersluatkvæðin í 2. kveðu hverrar braglínu. Skoðum dæmi, höldum okkur við svipað yrkisefni. Höfundur vísunnar er ókunnur:

Óttan blá er ekki dimm,
augað gráa natið.
Einar á fótum fimm
fast við skráargatið.

Þetta rím í 2. kveður kallast innrím (stundum líka kallað miðrím). Sá er munur á því og endaríminu, að í innrími hringhendunnar rímar aðeins eitt atkvæði. Í endaríminu verða orðin að ríma saman að fullu.

Flókin rímform

Rím er annars heil fræðigrein út af fyrir sig. Í Suttungi 2 (RIA 1996) má lesa eftirfarandi um vísurnar í bókinni Bragfræði og háttatal eftir Sveinbjörn Beinteinsson: „Vísur Sveinbjarnar eru kveðnar af mikilli list, rímformið á þeim ber nöfn eins og frumframhent, frumsamhent, hálfhent, víxlframhent, alhent, síðframhent, víxlalhent, frumbakhent, síðbakhent, hályklað, frumstiklað, skárímað, mishent, þráhent og síhent. Sum bragform bera heiti eins og þrístikla, sléttubönd, fléttubönd, fagrislagur, fagriháttur, dvergmálsháttur, vikivakalag og veltilag og þannig mætti telja lengi enn.“ (RIA 1996 2:17).

Flatrím

Rétt er að minnast hér á eitt rímafbrigði sem er nokkuð algengt í íslenskum kveðskap. Það heitir flatrím. Þá ríma saman endar þriggja atkvæða orða. Eins og fyrr kom fram er áhersla í íslensku ætíð á fyrsta atkvæði hvers orðs en aukaáhersla kemur að jafnaði á þriðja atkvæðið. Það er þessi aukaáhersla sem ber flatrímið uppi. Ekki kemur til greina að ríma saman enda tvíkvæðra orða.
Skoðum dæmi um flatrím:

Oddur fræga fornmenni,
fyrrum orkanræðari,
seinna Harðjaxls semjari,
seinast þjóðarbjargari.            

(Örn Arnarson)

Kúgaðu fé af kotungi
svo kveini undan þér almúgi,
þú hefnir þess í héraði
sem hallaðist á Alþingi.                      

(Eignuð Páli Vídalín)

Flatrím þykir ekki mjög reisulegt. Um flatrímið sagði Sveinbjörn Beinteinsson: „Þessi orðarass ber ekki uppi rím!“ Samt hafa margir snjallir hagyrðingar notað flatrím og skal það ekki átalið hér.

4. Ljóðstafir

Stuðlar og höfuðstafir

Ljóðstafir birtast á þann hátt að sömu eða á einhvern hátt hliðstæð hljóð (bókstafir) standa í áhersluatkvæðum (þ.e. fremst í kveðum) á ákveðnum stöðum í braglínunum.

Við byrjum á að skoða það sem kallað er braglínupar. Braglínupar kallast tvær braglínur í vísu eða kvæði, sú fyrri heitir frumlína en sú seinni síðlína. Braglínuparið tengist alltaf með ljóðstöfum. Tvær braglínur sem ekki bera sömu ljóðstafi geta ekki kallast braglínupar.
Ljóðstafir í frumlínunni heita stuðlar og eru langoftast tveir í línunni (ef línan er mjög stutt er nóg að hafa einn stuðul; slík dæmi eru ekki í til í rímnaháttunum), aldrei fleiri en tveir. Í síðlínunni er einn ljóðstafur sem kallast höfuðstafur. Hann er alltaf fremst í fyrstu kveðu línunnar. Skoðum dæmi, ljóðstafir feitletraðir:

Þegar andinn fer á flug
fjarri kröppum heimaranni
vísnagleðin veitir dug
vökulöngum kvæðamanni.                

(Sveinbjörn Beinteinsson)

Hér eru stuðlar í fyrra braglínuparinu f í fer og flug og höfuðstafur f í fjarri. Í síðlínunni eru stuðlar v í vísna- og veitir og höfuðstafur v í vöku-. Þessi vísa er, eins og sjá má, gerð úr tveimur braglínupörum.
Nú skulum við skipta þessari vísu í kveður:

Þegar | andinn | fer á | flug
fjarri | kröppum | heima- | -ranni
vísna- | -gleðin | veitir | dug
vöku- | -löngum | kvæða- | -manni.

Stuðlarnir standa í 3. og 4.  kveðu í fyrri frumlínunni og í 1. og 3.  kveðu í þeirri seinni. Skoðum aðra vísu. Henni hefur verið skipt í kveður:

Kem ég | enn og | kveð til | þín
kona | góð sem | bannar | þögn
ef að | vetrar- | -vísan | mín
vakið | gæti | eina | sögn.                    

(Sveinbjörn Beinteinsson)

Stuðlarnir eru í 1. og 3. kveðu fyrri frumlínunnar en í 2. og 3. kveðu þeirrar seinni. Reglan um stuðlana er sú að annar þeirra stendur alltaf í 3. kveðunni. Hinn má vera í 1., 2. eða 4. kveðu.
Höfuðstafurinn er alltaf fremst, þ.e. í fyrsta áhersluatkvæði síðlínunnar (sjá hér að framan um forlið).

Gnýstuðlar

Stafapörin sk, sl, sm, sn, sp og st stuðla aðeins innbyrðis en ekki við önnur s-pör. Þetta kallast gnýstuðlar. Skoðum eftirfarandi braglínupör:

skuldir stækka, skapið dignar
skammt að dánarhyl..                        

(Geir biskup Vídalín)

Þó slípist hestur og slitni gjörð
slettunum ekki kvíddu,                    

(Þórður á Strjúgi)

Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.

(Æri-Tobbi)

Heyrðu snöggvast, Snati minn
snjalli vinur kæri.

(Þorsteinn Erlingsson)

Spennti ég miðja spjaldagná,
spriklaði sál á vörum.

(Benedikt Gröndal Jónsson)

raddir þvinga úr stagi og streng
stormsins fingurgómar

(Stephan G. Stephansson)

Þessi regla, að taka verði tillit til þess hvaða stafur fer næst á eftir þeim sem valinn er sem ljóðstafur, á ekki við um neinn annan staf en s.

Sérhljóðar sem ljóðstafir

Sérhljóðarnir hafa þá sérstöðu að þá má nota hvern með öðrum í stuðlun. Skoðum dæmi:

Ýmsir þrá en ekkert fá,
af því gerast bitrir.
Flestir reynast eftir á
ótrúlega vitrir.                                    

(Bragi Björnsson)

Fallegast þykir, ef sérhljóðar eru notaðir sem ljóðstafir, að í hverju braglínu pari séu engir tveir sérhljóðar eins.

Ofstuðlun og aukaljóðstafir

Ekki mega vera fleiri en tveir stuðlar í frumlínunni og aðeins má vera einn höfuðstafur. Ef ljóðstafir verða of margir kallast það ofstuðlun. Ekkert sérstakt heiti er til um það þegar annan stuðulinn vantar en það skemmir vísuna jafnmikið þrátt fyrir það.
Þá mega ekki vera nema einir ljóðstafir í hverju braglínupari. Ef bætt er við öðrum stuðlum, til viðbótar þeim sem fyrir eru, kallast það aukaljóðstafir. Skoðum nafnavísu:

Fúsi, Beggi, Fróði, Freyr,
Finna, Gyða, Gunnur.
Helgi, Jónas, Bergur, Geir,
Bera, Ásta, Unnur.

Hér er sitthvað í ólagi. Í fyrri frumlínunni eru þrír stuðlar, f í Fúsi, Fróði og Freyr. Í fyrri síðlínunni eru aukaljóðstafir: g í Gyða og Gunnur. Í seinni frumlínunni vantar annan stuðulinn. Stuðlarnir eiga að öllum líkindum að vera b eftir höfuðstafnum að dæma. Og í seinni síðlínunni eru aftur aukaljóðstafir: á og u í Ásta og  Unnur.
Við lagfærum þessa vísu í snatri:

Helgi, Jónas, Fróði, Freyr,
Finna, Ásta, Gunnur.
Fúsi, Beggi, Bergur, Geir,
Bera, Gyða, Unnur.  

Þessi vísa er nú hárrétt samkvæmt reglunum.

5. Erindi

Erindi merkir það sama og vísa. Algengast er að vísur undir rímnaháttum séu fjórar braglínur. Það kallast ferkvæðir hættir þegar hvert erindi er fjórar braglínur:

Dauðinn allra dregur hlass,
dapur er lífsins vegur.
Farðu nú í fjandans rass
faðir minn elskulegur.

(Ljósavatnssystur)

Þríkvæðir hættir kallast það þegar hvert erindi er þrjár braglínur:

Djöfull var nú, drengir, gott að detta í´ða.
Mega frjáls um fjöllin ríða
og fullur o´ní pokann skríða.

(Brynjólfur Guðmundsson í Núpstúni)

Í tvíkvæðum háttum eru aðeins tvær braglínur í hverju erindi:

Kirkjuna Drottinn burtu blés í bræði sinni.
Því var prestur þá ekki inni.

(Páll Ólafsson)

Um þetta verður nánar fjallað í næsta kafla.

6. Bragarhættir

Til eru fjölmargir bragarhættir. Hér verða dæmi tekin af 20 mismunandi háttum og þeir skýrðir lítillega auk þess sem verkefni fylgja. Athugið að í lýsingum á rímnaháttum er ekki tekið fram hvort um forliði er að ræða eða ekki vegna þess að það er val um þá. Sama á við um þríliði og úrfellingar sem fjallað var um í 4. kafla. Slíkt kemur oft fyrir í vísum en það breytir engu um bragarháttinn.

Fyrsti hátturinn heitir ferskeytt. Vísa undir þeim hætti kallast ferskeytla.

Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður og sú síðasta stýfð, síðlínur eru þrjár kveður óstýfðar. Víxlrím (rímform aBaB).

Dæmi:

Arkar karlinn út í fjós
Ingibjörgu að finna;
ekki þarf hann alltaf ljós
til útiverka sinna.

(Páll Pálsson á Knappsstöðum)

Er þú kæra kyssir mig
kætist brjóstið fremur.
Eina skal ég elska þig
- unz önnur skárri kemur.

(Kristján Jónsson)

Er það gleði Andskotans
umboðslaun og gróði
fémunir þá fátæks manns
fúna í ríkra sjóði.

(Bólu-Hjálmar)

Annar hátturinn heitir draghent. Vísa undir þeim hætti kallast draghenda.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður óstýfðar, síðlínur eru þrjár kveður óstýfðar. Víxlrím (rímform ABAB).

Dæmi:

Þegar aftur undan klaka
andans hlíðar leysast,
lífsins krafta læt ég vaka;
ljóð úr skorðum geysast.

(Sveinbjörn Beinteinsson)

Þriðji hátturinn heitir stefjahrun. Vísa undir þeim hætti kallast það sama.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður og sú síðasta stýfð, síðlínur eru þrjár kveður og sú síðasta stýfð. Víxlrím (rímform abab).

Dæmi:

Margt er hægt að heyja sér
heims um fögur ból:
Uppi á hillu á ég mér
ólíkindatól

(Þórarinn Eldjárn)

Fjórði hátturinn heitir skammhent. Vísa undir þeim hætti kallast skammhenda.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður óstýfðar, síðlínur eru þrjár kveður og sú síðasta stýfð. Víxlrím (rímform AbAb).

Dæmi:

Endurtekin er vor saga,
á því ræðst ei bót.
Margir sínar neglur naga
nú við áramót.

(Rögnvaldur Rögnvaldsson)

Dug og prýði drepur lýða
daga stríður her.
Eigi þýðir þó að kvíða
þeim, er síðast fer.

(Kristján frá Djúpalæk)

Fimmti hátturinn heitir úrkast. Vísa undir þeim hætti kallast það sama.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður óstýfðar, síðlínur eru tvær kveður óstýfðar. Víxlrím (rímform ABAB).

Dæmi:

Höfuðfatahöfuðpaurinn
húsum ræður.
Aðalhattayfirgaurinn –
ótvíræður.

(Þórarinn Eldjárn)

Sjötti hátturinn heitir dverghent. Vísa undir þeim hætti kallast dverghenda.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður óstýfðar, síðlínur eru tvær kveður og sú seinni stýfð. Víxlrím (rímform AbAb).

Dæmi:

Bæði tvö ef enn við ættum
orð til góðs
rakið skal af þúsundþættum
þræði ljóðs.

(Sveinbjörn Beinteinsson)

Sjöundi hátturinn heitir gagaraljóð. Vísa undir þeim hætti kallast það sama.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður og sú síðasta stýfð, síðlínur eins. Víxlrím (rímform abab).

Dæmi:

Einhverntíma ef ég ræ
einhverntíma kemur logn,
einhverntíma útá sæ
einhventíma fæ ég hrogn.

(Sigurður Jósúason)

Veðrið er hvorki vont né gott,
varla kalt og ekki heitt.
Það er hvorki þurrt né vott.
Það er svosem ekki neitt.

Jónas Hallgrímsson)

Hér má sjá dæmi um sniðrím, gott/heitt; vott/neitt. Þetta er afbrigði af gagaraljóði sem kallast gagaravilla.

Áttundi hátturinn heitir langhent. Vísa undir þeim hætti kallast langhenda.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður óstýfðar, síðlínur eru fjórar kveður og sú síðasta stýfð. Víxlrím (rímform AbAb).

Dæmi:

Hátt og hvelft er á þér enni,
ekki er þér um málið tregt.
En að þú sért mikilmenni;
– mér finnst það nú ótrúlegt.

(Haraldur Hjálmarsson á Kambi)

Sjaldan varstu viðbragðsfljótur,
var þín leti um sveitir spurð,
en þér var aldrei þungur fótur
þyrfti mann í söguburð.

(Bragi Björnsson)

Þér er ekki stirt um stefið,
stirnir í þitt sálarglit.
Ekkert var þér illa gefið
utan þetta litla vit.

(Sigfús Axfjörð)

Níundi hátturinn heitir nýhent. Vísa undir þeim hætti kallast nýhenda.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður og sú síðasta stýfð, síðlínur eru fjórar kveður óstýfðar. Víxlrím (rímform aBaB). Þetta er eini bragarhátturinn þar sem síðlínur eru lengri en frumlínur.

Dæmi:

Blíðir kvöddu seggir senn.
Síðan ekki vildu bíða.
Skíðavanir skerpumenn
skríða geyst um fjöllin víða.

(Sveinbjörn Beinteinsson)

Tíundi hátturinn heitir breiðhent. Vísa undir þeim hætti kallast breiðhenda.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður óstýfðar, síðlínur eins. Víxlrím (rímform ABAB).

Dæmi:

Heimskir flissa, hræddir tjá sig,
hinir missa af ýmsum gæðum,
þeir sem pissa alltaf á sig
undir vissum kringumstæðum.

(Bragi Björnsson)

Ellefti hátturinn heitir stafhent. Vísa undir þeim hætti kallast stafhenda.
Lýsing: fjórar línur, allar línur eru fjórar kveður með síðustu kveðu stýfða. Runurím, 1. og 2. lína ríma saman, sömuleiðis 3. og 4. lína (rímform aabb).

Dæmi:

Mér til gleði matast ég
því megrunin er hættuleg;
leiðist hvers kyns líkamsrækt
og líður best að vinna hægt.

(Hákon Aðalsteinsson)

Endalaust hann grefur göng,
göngin eru dimm og löng.
Hann vill gjarna hafa rakt,
hann er mest á næturvakt.  

(Þórarinn Eldjárn)

Tólfti hátturinn heitir samhent. Vísa undir þeim hætti kallast samhenda.
Lýsing: fjórar línur, allar línur eru fjórar kveður með síðustu kveðu stýfða. Runurím, allar línur ríma saman (rímform aaaa).

Dæmi:

Kæmi Stjáni í krappan dans
kostir birtust fullhugans.
Betri þóttu handtök hans
heldur en nokkurs annars manns.

(Örn Arnarson)

Þrettándi hátturinn heitir stikluvik. Vísa undir þeim hætti kallast það sama.
Lýsing: fjórar línur, 1., 2. og 4. lína eru fjórar kveður með síðustu kveðu stýfða. 2. lína er þrjár kveður óstýfðar. 1., 2. og 4. lína ríma saman. 2. lína rímar ekki við hinar (rímform aBaa).

Dæmi:

Aftur hljóma lögin ljúf,
lengja tekur daginn.
Vísu ritar höndin hrjúf.
Hugur dvelst við rímnastúf.

(Sveinbjörn Beinteinsson)

Barn í dalnum datt í gat,
djúpt og kalt og skrítið.
Ókindin sem undir sat
uppáklædd því bauð í mat.

(Þórarinn Eldjárn)

Þessar klappir þekkti ég fyr
þegar ég var ungur,
átti ég víða á þeim dyr,
eru þar skápar fallegir.

(Árni á Stórahamri)

Það var ekki þraut né pín
Þórdísi að finna,
mér gaf þekkust menjalín
mjólk að drekka og brennivín.

(Jón Árnason á Víðimýri)

Fjórtándi hátturinn heitir valstýft. Vísa undir þeim hætti kallast valstýfa.
Lýsing: fjórar línur, frumlínur eru fjórar kveður, sú síðasta stýfð, síðlínur tvær kveður, sú seinni stýfð. Í þessum bragarhætti er nánast óumflýjanlegt að forliður sé í síðlínum. Stundum er valstýfan reyndar þannig að frumlínurnar eru fjórar kveður óstýfðar og þá er ekki forliður í síðlínunum. Allar línurnar ríma saman sem er afar óvenjulegt af því að þær eru ekki allar jafnlangar (rímform aaaa).

Dæmi:

Herjans kera öl er eytt
og ekki neitt,
fríðum lýðum verður veitt
til vilja greitt.  

(Magnús Jónsson á Laugum)

Fuglinn sat og söng á grein
er sólin skein:
– Framundan er brautin bein
og bara ein.

(Þórarinn Eldjárn)

Fimmtándi hátturinn heitir braghent. Vísa undir þeim hætti kallast braghenda.
Lýsing: þrjár línur, 1. lína er 6 kveður óstýfðar. Í rauninni eru þetta tvær línur, enda ljóðstafir þrír, tveir stuðlar í fyrstu fjórum kveðunum og þeirra annar í 3. kveðu og svo höfuðstafur í 5. kveðu. 2. og 3. lína eru frumlína og síðlína og stuðlast þannig, fjórar kveður óstýfðar. Þær tvær ríma saman en fyrsta línan þarf ekki að ríma við hinar (algengt rímform er ABB eða AAA).

Dæmi:

Heimspekingur hér kom einn á húsgangsróli.
Með gleraugu hann gekk á skíðum,
gæfuleysið féll að síðum.  

(Bólu-Hjálmar Jónsson)

Takið eftir að fyrsta braglína rímar ekki við hinar tvær. Þetta kallast óbreytt braghenda.

Sólskríkjan mín situr enn á sama steini.
Hlær við sínum hjartans vini,
honum Páli Ólafssyni.    

(Páll Ólafsson)

Hér tengir sniðrím 1. braglínu við hinar tvær. Þetta kallast baksneidd braghenda.

Það er eins og inní hausnum ennþá kveði;
ekki man ég allt sem skeði,
en eitt er víst – að hér var gleði.

(Brynjólfur Guðmundsson í Núpstúni)

Þessi braghenda er samrímuð (kveði/skeði/gleði).

Ég fann hryggð og ég fann gleði jafnframt raunar,
geðshræringin gróf sér fínar
grátkitlur í nasir mínar.  

(Guðmundur Ketilsson)

Þessi er líka baksneidd.

Sextándi hátturinn heitir valhent. Vísa undir þeim hætti kallast valhenda.
Lýsing: þrjár línur, 1. lína er 6 kveður og sú síðasta stýfð. 2. og 3. lína eru frumlína og síðlína og stuðlast þannig, fjórar kveður og sú síðasta stýfð. Þær tvær ríma saman en fyrsta línan þarf ekki að ríma við hinar (algengt rímform er abb). Valhenda er eins og braghenda nema þar enda allar línur á stýfðum lið.

Dæmi:

Hlaupagikkur hleypur urð og hleypur veg,
hlaupagikkur hljóp á sig,
hlaupagikkur missti stig.

(Þórarinn Eldjárn)

Þessi valhenda er baksneidd (sjá um braghendu). Valhenda getur líka verið óbreytt eða samrímuð (sjá um braghendu).

Sautjándi hátturinn heitir stuðlafall. Vísa undir þeim hætti kallast það sama.
Lýsing: þrjár línur, 1. lína er fimm kveður óstýfðar, báðir stuðlar í einhverjum af þremur fyrstu kveðunum. 2. og 3. lína eru frumlína og síðlína og stuðlast þannig, fjórar kveður með þá síðustu stýfða. Þær tvær ríma saman en fyrsta línan rímar ekki við hinar (rímform er Abb).

Dæmi:

Ef einhver sér mig ekki vera´ að moka, –
þetta orða þannig hlýt: –
Þá er orðið hart um skít.

(Káinn)

Edda prýðir, allir lýðir segja,
en hana að brúka ofmjög er
eins og tómt að éta smér.  

(Sveinbjörn Egilsson)

Átjándi hátturinn heitir vikhent. Vísa undir þeim hætti kallast vikhenda.
Lýsing: þrjár línur, 1. lína er fimm kveður óstýfðar, báðir stuðlar í einhverjum af þremur fyrstu kveðunum. 2. og 3. lína eru frumlína og síðlína og stuðlast þannig, frumlínan er fjórar kveður og sú síðasta stýfð, síðlínan er þrjár kveður óstýfðar. 3. línan rímar við 1. línu (rímform er AbA).

Dæmi:

Falla deilur, fest er sættin bragna,
engar sakir urðu meir.
Allir þessu fagna.

(Sveinbjörn Beinteinsson)

Nítjándi hátturinn heitir afhent. Vísa undir þeim hætti kallast afhenda (oft kölluð afhending).
Lýsing: tvær línur, fyrri línan er sex kveður óstýfðar, í rauninni eru þetta tvær línur, enda ljóðstafir þrír, tveir stuðlar í fyrstu fjórum kveðunum og þeirra annar í 3. kveðu og svo höfuðstafur í 5. kveðu (sjá um braghendu), seinni línan er sérstuðluð. Afhenda er eins og braghenda fyrir utan að síðasta línan hefur verið tekin af (líklega er nafnið komið af því). Línurnar ríma saman (rímform er AA).

Dæmi:

Afhendingin er mér kærst af öllum brögum
þegar ég yrki óð af sögum.  

(Sigurður Breiðfjörð)

Tuttugasti hátturinn heitir stúfhent. Vísa undir þeim hætti kallast stúfhenda.
Lýsing: tvær línur, fyrri línan er sex kveður og sú síðasta stýfð, í rauninni eru þetta tvær línur, enda ljóðstafir þrír, tveir stuðlar í fyrstu fjórum kveðunum og þeirra annar í 3. kveðu og svo höfuðstafur í 5. kveðu (sjá um valhendu), seinni línan er sérstuðluð. Stúfhenda er eins og valhenda fyrir utan að síðasta línan hefur verið tekin af. Línurnar ríma saman (rímform er aa).

Dæmi:

Mun ég yrkja, meyjan góða, meir til þín
fyrr en sól á fjöllin skín.

(Sveinbjörn Beinteinsson)

* Bókin til útprentunar

7. Verkefni

Hér getið þið reynt við verkefni í öllum bragarháttunum til að skerpa skilninginn og þjálfa ykkur betur í notkun þeirra. Verkefnin má glíma við á hefðbundinn hátt í huganum eða á pappír, en svo getið þið líka glímt við þau gagnvirkt (sjá tengil við hvert verkefni). Verkefnin eru þannig upp byggð að þið fáið uppgefin öll vísuorðin og eigið svo að setja saman vísuna útfrá forskrift hvers bragarháttar. Gangi ykkur vel og góða skemmtun!

1. Ferskeytt

Vísan er ort út við sjó fyrir og eftir fallaskipti, líklega í nokkrum vindi. Athugið að hér eru tvö orð (öldu-traf, ólgu-haf) sem ná yfir meira en eina heila kveðu. Þeim orðum skiptum við með bandstriki (-). Þetta er algengt í verkefnunum sem fara hér á eftir.

Aðfall, ókyrrð, straumur, skvetta, bára, gusa, öldu-traf, ágjöf, útfall, bylgja, ólgu-haf, gára.

2. Draghent

Sagnorðin í næsta verkefni eru frekar sundurlaus og hægt að raða þeim á ýmsa vegu. Takið eftir því að hér eru gnýstuðlar, sn.

Vakna, bera, klæða, bíða, geispa, snúa, snæða, vinna, brosa, syngja, leita, finna, snara, iðka.

3. Stefjahrun

Næsta verkefni gengur út á að raða saman nafnorðum, þemað er húsnæðismál, eða hvað? Gætið að því að ofstuðla ekki.

Kofi, skemma, hellir, búr, geymsla, hýsi, krókur, kot, kytra, hlaða, skúr, gangur, skúma-skot.

4. Skammhenda

Íslenskt landslag, hvað er fegurra og meira grípandi?

Brekkur, fjörur, lindir, ár, melar, straumur, mýrar, þúfur, lækir, fossar, grundir, móar, flaumur, blár.

5. Úrkast

Næst eru nokkrar sagnir sem benda til þess að vísan gæti hafa orðið til að ferðalagi.

Ferðast, þjóta, heilsa, kveðja, vaka, keyra, mæta, elta, aka, æja, gæta, komast.

6. Dverghent

Og nú erum við komin í skemmtanalífið.

Kófrugl-aður, rakur, kenndur, hreifur, reikull, kátur, flár, blautur, drukkinn, reifur, þrár.

7. Gagaraljóð

Hvað dettur okkur helst í hug þegar minnst er á stjórnmál? Þessi vísa er ekki venjulegt gagaraljóð heldur er hún ort undir hætti sem kallast gagaravilla. Þá tengist endarímið, víxlrímið, með sniðrími.

Undir-ferli, ryk, orða-gjálfur, svik, valda-frík, æði, sundrung, svívirð-ingar, pólítík, flokka-drættir.

8. Langhenda

Næst eru nokkur sagnorð. Hér er lífsgleðin í fyrirrúmi.

Hressa, styðja, brosa, gleðja, hjálpa, þrá, faðma, hlæja, knúsa, bjarga, kæta, kyssa, dreyma, efla, tjá, bæta.

9. Nýhenda

Næstu tvær vísur eru mannlýsingar. Nýhendan er lofsöngur um manninn.

Fimur, vaskur, snöggur, karskur, brattur, hraustur, fríður, kænn, djarfur, frækinn, vitur, kátur, vænn, glæstur, leikinn, blíður.

10. Breiðhenda

En svo er líka til önnur hlið á málinu.

Ljótur, bældur, fýldur, rotinn, brotinn, lasta-fullur, ágjarn, svikull, grimmur, yggldur, barinn, villtur, daufur, lyginn, hvikull.

11. Stafhenda

Og hvernig væri svo að gera eina vísu um veðrið?

Norðan-blástur, vindur, freri, snjór, klaki, bylja-kór, skaflar, kulda-tíð, bólstrar, krapi, mugga, ofan-hríð.

12. Samhenda

Næsta verkefni er mannlýsing, að þessu sinni er það kona sem er vegin og metin.

Andrík, dugleg, geðfelld, ágæt, söngvin, rjóð, blíðlynd, hugþekk, fögur, göfug, fróð, góð, flekklaus, kurteis, iðin, hljóð.

13. Stikluvik

Áfram er fjallað um jákvæða eiginleika konunnar sem nefnd er í vísunni hér á undan. Hér eru þrjú orð sem ná yfir tvær kveður. Auk þess verður að gæta þess að ofstuðla ekki.

Fegurð, göfgi, lyndis-prýði, viska, gæska, leikni, gæða-drós, lagni, glæsi-leiki, þekking, ljós, hrós.

14. Valstýfa

Þetta verkefni er vísa, fengin að láni úr bók sem heitir Gælur, fælur og þvælur eftir Þórarin Eldjárn. Valstífan er erfið vegna þess að þar verða að vera forliðir í 2. og 4. línu og slíkt gengur ekki upp þegar vísnaverkefni eru sett saman úr sundurlausum orðum. Verkefnið felst í því að endurraða vísu Þórarins þannig að úr verði rétt gerð valstýfa.

Fuglinn og á er skein er bein og bara sólin brautin grein söng ein sat framund-an.                                              

15. Braghenda

Enn er verið að hæla einu mikilmenninu. Þessi vísa á að vera baksneidd, sem þýðir að fyrsta línan tengist hinum tveimur með sniðrími.

Manna-sættir, viska, glæsi-leiki, yndi, mildi, æska, mikil-leiki, unaðs-fegurð, prýði, gæska.

16. Valhenda

Næsta verkefni gengur út á að tilgreina ýmiss konar sjúkdóma. Hér er ekki ætlast til þess að fyrsta línan rími við hinar tvær. Það kallast frárímað.

Nála-dofi, lungna-bólga, svöðu-sár, niður-gangur, sýki, krampi, iðra-fár, nýrna-kast.

17. Stuðlafall

Og áfram með sjúkdómana. Hér er líka frárímað.

Höfuð-verkur, svimi, bjúgur, iðra-kvef, hjarta-krampi, innan-tökur, stíflu-nef, asmi.

18. Vikhenda

Það sem næst er fjallað um gæti verið afleiðing af hinu sjúklega ástandi sem rætt var um í vísunum hér á undan.

Tauga-veiklun, amstur, þvergirð-ingur, streita, vesöld, stríð, stirfni, fýla, leiði, reiði.

19. Afhenda

Verkefnið hér á eftir fjallar um mann sem virðist ekki vera sérlega skemmtilegur. Svona menn eru til, því miður.

Derrinn, grobbinn, sjálfum-glaður, drembi-látur, sálar-tregur, drunga-legur.

20. Stúfhenda

Og við endum þetta á jákvæðu nótunum. Kappinn úr afhenduverkefninu hefur nú bætt sig stórlega, líklega farið í meðferð eða gerst skáti.

Drottin-hollur, klár, sterkur, lipur, djarfur, dáðum-prýddur, fóta-frár.

* Verkefnahefti til útprentunar

* Svarhefti til útprentunar

8. Fyrirspurnahornið

Öllum þeim sem vilja fást við að setja saman rímur er mikilvægt að hafa einhvern til að leiðbeina sér, sérstaklega í byrjun. Og það er einmitt það sem við bjóðum upp á hér á

þessari síðu. Við viljum að þið hafið samband við okkur, því það er okkur metnaðarmál að þessi þekking glatist ekki og að vegur rímnanna verði sem mestur. Hvort sem þið viljið vita hvort vísan ykkar er rétt kveðin eða spyrja út í einhver tæknileg atriði varðandi bragfræðina, þá tökum því öllu fagnandi.

Þið smellið á linkinn eða takið afrit af netfanginu, og sendið fyrirspurnina með tölvupósti. ( ria@hi.is )

ria@hi.is

9. Rímnasafn

Hér munum við bjóða upp á safn af völdum rímum og rímnaflokkum ykkur til skemmtunar og upplýsingar.

Við byrjum á fyrstu rímunni af Oddi sterka eftir Örn Arnarson (Magnús Stefánsson) sem margir hafa mikið dálæti á, enda einstaklega vel ort. Hún er ort undir samhendum bragarhætti. Þá er þetta jafnframt hringhenda, þ. e. áhersluatkvæðin í annarri kveðu hverrar braglínu ríma saman.

RÍMUR AF ODDI STERKA (kveðnar árið 1932) eftir Örn Arnarson

Fyrsta ríma: ÆSKUÁR ODDS STERKA

Hitnar blóð, því kappi í kinn
kemur ljóðahugurinn.
Þekku fljóði þráð ég spinn,
þeyti óðar rokkinn minn.
Þín skal minnast, hringþöll hýr,
haldgóð spinnast ævintýr,
síðan tvinnast saga skýr,
seinast þrinnast bragur dýr.
Samkembt hef ég sundruð gögn,
safna í vefinn hverri ögn,
upp því gref úr gleymsku og þögn
glötuð stef og týnda sögn.
Koma dagar, ráðast ráð,
rétt mun fagurt efnið kljáð,
fróðir staga þráð við þráð,
þjóðarsagan verður skráð.

----

Fæddur í veri Oddur er,
um þann knérunn vitni ber,
er leikur sér um sund og sker,
siglir knerri um bláan ver.
Ungur gáði út á Svið,
ungur dáði hafsins nið,
ungur þáði Ægis við
afl og dáð og sjómanns snið.
Lét ei hræða brim né byl,
bjóst á græði fanga til.
Á keip og ræði kunni skil -
og kristin fræði hér um bil.
Lærði að taka lag og mið,
lenda, stjaka, halda við,
skorða, baka, hitta hlið,
hamla, skaka og andófið -
Hausa, fletja, slíta slóg,
sleddu hvetja, ausa sjó,
fast að setja, fíra kló,
fella net og splæsa tó -

-----

Grunnmál taka, leggja lóð,
lúðu flaka, slægja kóð,
seglum aka, beita bjóð,
blóðga, kraka, róa í njóð.
Lærði að þekkja bakka, brok,
bólstra, mekki, þoku, fok,
brælu, strekking, rumbu, rok,
reynslu fékk um tregðu og mok.
Seglum þöndum sigldi á slóð.
Svam að ströndum veiði góð,
síli, bröndur, seiði, kóð,
svo á höndum einum stóð.
Þrýtur ljóða þráðurinn,
þagnar óðar rokkur minn.
Heillin rjóða, hýr á kinn,
haltu til góða í þetta sinn.

----

Skólavefurinn.is
Allur réttur áskilinn