Hér bjóðum við upp á stutt æviágrip valinkunnra einstaklinga frá ýmsum tímum, bæði íslenskra og erlendra. Tilvalið er að nota efnið í hópkennslu eða sem viðbót við annað efni.
Hér er á ferðinni heildstætt námsefni um sögu sem tekur fyrir tímabilið frá aldamótunum 1800 og fram að því að Íslendingar öðluðust svonefnda heimastjórn. Margskipt efni sem unnið er útfrá markmiðum aðalnámskrár í sögu fyrir 8.–10. bekk.
Hér er hægt að sækja heilsteypt námsefni í sögu á unglingastigi í fimm kennsluheftum eftir Halldór Ívarsson. Efnið var upphaflega unnið sem glósur en getur hæglega nýst sem sjálfstætt námsefni.
Í námskrá er skráð að nemendur eigi að geta skoðað íslenskt miðaldasamfélag í ljósi kunnugs einstaklings, t.d. Snorra Sturlusonar, Guðmundar biskups góða eða Guðríðar Þorbjarnardóttur. Þetta hefti tekur fyrir ævi Snorra Sturlusonar og allt þar til Íslendingar lenda undir vald Noregskonungs árið 1262. Heftið telur 29 blaðsíður með góðum verkefnum.
Nú bjóðum við upp glænýtt heildstætt efni um fyrri heimsstyrjöldina hvort heldur til almennrar sögukennslu eða til að efla lesskilning.
Fyrri heimsstyrjöldin var ásamt með síðari heimstyrjöldinni sá atburður sem hvað mest mótaði tuttugustu öldina og þann veruleika sem við búum við í dag. Til að skilja betur samtímann er nauðsynlegt að kunna á henni skil.
Efnið er fyrst og fremst hugsað sem söguefni fyrir efstu bekki grunnskólans en mætti hæglega nota sem þjálfunarefni í lesskilningi á á öðrum stigum ef út í það er farið. Þá hentar efnið einnig framhaldsskólum.
Efnið skiptist í fimm bækur og má segja að fyrstu tvær bækurnar séu heildstætt efni þar sem farið er yfir aðdraganda styrjaldarinnar, gang hennar og afleiðingar. Hinar þrjár bækurnar eru ítarefni fyrir þá sem vilja fræðast enn frekar um meginmálið.
Efnið er hægt að prenta út en svo er efnið einnig aðgengilegt á góðri vefsíðu þar sem hægt er að hlusta á það upplesið og glíma við gagnvirkar fjölvalsspurningar.
Þá munum við innan skamms bjóða upp á myndbandsviðtöl við einstaklinga sem upplifðu átökin á eigin skinni.
27 blaðsíðna vinnubók þar sem farið er yfir lífshlaup og list Sölva Helgasonar. Um er að ræða námsefni sem hentar vel með námsefninu um heimastjórnina. Efnið speglar svolítið annan raunveruleika sem er engu síður mikilvægur og kallað er eftir í námskrá. Í námskrá segir að nemendur eigi að afla ,,sér upplýsinga úr ritum, af myndum og Netinu um lífshlaup, þjóðfélagsstöðu, verk og einkenni einstakra listamanna og hópa þeirra." Í þeirri upptalningu er minnst á Sölva Helgason.
Tímalínur eru aðgengileg og forvitnileg leið til að læra söguna og sjá hana í samhengi við aðra hluti. Því förum við nú af stað með safn tímalína sem hægt er að vafra um sér til fróðleiks og skemmtunar. Þá henta þær vel á skjávarpa í kennslustofu og er tilvalið að enda kennslustundir með því að skoða eitthvað sem gerðist á einhverjum tilteknum tíma. Nú þegar eru tímalínurnar orðnar sjö. Þær bera yfirheitið: Ísland og Noregur á 10. öld, Heimurinn á 10. öld, Ísland á 11. öld, Heimurinn á 11. öld, Jón Sigurðsson (19. öld), Sjálfstæðisbaráttan (19. öld) og Heimurinn á 19. öld.
Hér getið þið nálgast 33 blaðsíðna leshefti sem spannar umrætt tímabil Íslandssögunnar.
Kennslubók í sögu fyrir 6. bekk - 1. hefti (prentútgáfa).
Bókin Úr sveit í borg er víða kennd í 8. bekk og við bjóðum upp á vandaða vinnubók eftir Halldór Ívarsson sem unnin er með hliðsjón af henni og Aðalnámskrá. Er bókin hér í fjórum hlutum sem saman telja 40 blaðsíður. Er annars vegar um að ræða nemendabók og hins vegar kennarabók með lausnum.
Þetta skemmtilega námsefni í Íslandssögu tekur fyrir tímabilið skömmu fyrir kristnitöku árið 1000 til ársins 1262 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd.Við beinum sjónum okkar að kristninni og áhrifum hennar, sem voru mjög víðtæk og röskuðu með tímanum öllu valdajafnvægi sem áður hafði verið. Í öðru lagi ætlum við að skoða líf höfðingja á þessum tíma og höfum valið Snorra Sturluson til þess að vera dæmi um slíkan veraldarhöfðingja. Samhliða þessu munum við reyna að skoða helstu siði, atburði og nýjungar sem áttu sér stað á tímabilinu. Að lokum ætlum við að skoða þau átök sem leiddu til þess að landið lenti undir Noregskonung og hvað var að gerast úti í hinum stóra heimi meðan Íslendingar miðalda voru að spinna sinn örlagavef.Efnið er sniðið að þörfum 6. bekkjar grunnskóla, skemmtilega uppsett, myndskreytt og með góðum verkefnum.